Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 320 . mál.


Nd.

883. Nefndarálit



um frv. til l. um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.


    
    Margoft hefur verið bent á nauðsyn þess að samræma lög og reglur um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi þar sem gildandi ákvæði eru bæði ósamstæð og óljós. Straumur fjárfestinga landa á milli fer vaxandi og nauðsynlegt er að hafa stjórn á hvernig hann fer fram og að reglur um hann séu fastmótaðar.
     Samvinna við erlenda aðila í atvinnurekstri hér á landi getur haft ýmsa kosti í för með sér, svo sem aðgang að tækniþekkingu, markaði og viðskiptasamböndum, auk þess sem erlent áhættufé getur komið í staðinn fyrir erlent lánsfé við fjármögnun atvinnufyrirtækja hér á landi. Því má segja að þetta frumvarp sé tímabært og í samræmi við þá þróun sem á sér stað í alþjóðlegu efnahagslífi.
     Samkvæmt frumvarpinu og fylgifrumvarpi á að útiloka að erlendir aðilar geti átt eignarhlut í fiskiskipum sem stunda veiðar í íslenskri landhelgi. Þessu er 1. minni hl. samþykkur. Ákvæði frumvarpsins um fiskvinnslu eru hins vegar ekki eins afdráttarlaus og opna fyrir erlenda eignaraðild að vissu marki.
     Kvennalistakonur vilja vara við slíkri hlutdeild útlendinga í aðalútflutningsiðnaði landsmanna og telja að hið sama skuli gilda um fiskveiðar og fiskvinnslu. Því flytur 1. minni hl. breytingartillögu við 2. tölul. 4. gr.
     Eftirliti með fjárfestingum erlendra aðila hér á landi hefur verið mjög ábótavant og erfitt hefur verið að hafa yfirsýn yfir þessar fjárfestingar. Þetta atriði er ekki tryggt með þessu frumvarpi. Ekki verður séð hvernig unnt á að vera að meta heildarfjárfestingu í hverri atvinnugrein eins og gert er ráð fyrir skv. 7. tölul. 4. gr. Þessi ákvæði eru því haldlítil. Í umsögnum um frumvarpið hafa fjölmargir aðilar bent á þetta atriði. Oft þykir óljóst við hvað er átt með „atvinnugrein“ í 7. tölul. 4. gr. Heildarfjárfesting erlendra aðila í hverri atvinnugrein fyrir sig má ekki vera yfir 25% nema til komi „leyfi viðskiptaráðherra“. Einnig er óljóst af hvaða stofni 25% eiga að reiknast, hvort takmörkun miðist við árlega fjárfestingu eða heildarfjárhæð erlends fjármagns af eigin fé hverrar atvinnugreinar alls.
     Vegna þessara annmarka er hér mælt með að heildarfjárfesting erlendra aðila í hverju atvinnufyrirtæki verði aldrei yfir 49%.
     Fyrsti minni hl. leggur áherslu á að Íslendingar missi ekki úr höndum sér stjórn á nýtingu landsins til ferðaþjónustu. Ekki er lögð til ákveðin breytingartillaga hér, þar sem gert er ráð fyrir að ákvæði 24. gr. frumvarps um ferðaþjónustu muni gilda verði það frumvarp að lögum. Það sama á við um útvarp, sjónvarp og fjölmiðlun almennt. Því er hér lögð til sú breyting við fylgifrumvarpið um breytingu á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri að 20. gr. þess verði felld brott.
     Íslenska hagkerfið er mjög viðkvæmt vegna þess hve einleitt atvinnulífið er og byggist að meginhluta til á einni auðlind, fiskinum í sjónum. Fyrsta minni hl. þykir því eðlilegt að taka nokkru smærri skref en frumvarpið gerir ráð fyrir til að tækifæri gefist til að skoða afleiðingarnar. Leiðin til baka er mjög erfið. Fjölmargar þjóðir hafa kosið að fara varlega í þessum efnum og er fyllsta ástæða fyrir Íslendinga að gera það einnig. Því þykir 1. minni hl. rétt að sú regla gildi að þeir geti ekki átt meiri hluta hlutafjár í atvinnu - eða þjónustufyrirtækjum á Íslandi.
     Að lokum er ítrekað það álit 1. minni hl. að þess verði ávallt gætt að erlendum aðilum beri skilyrðislaust að fara eftir lögum, reglum og hefðum íslensks vinnumarkaðar, kjarasamningar íslenskra stéttarfélaga verði eftir sem áður í gildi, svo og allar reglur um aðbúnað, hollustuhætti og vinnuvernd. Þá þykir ljóst að stórátak verður að gera í að herða öll lög og reglur er varða umhverfisvernd og mengunarvarnir.
    
    

Alþingi, 12. mars 1991.



Guðný Guðbjörnsdóttir.